Nýr bíll er keyptur í Kína á tveggja sekúndna fresti, að því er fram kemur á vef CNN . Búist er við því að 21 milljón nýrra bíla, vöruflutningabíla og rútubíla verði keypt á næsta ári. Haldi þróunin áfram er jafnvel búist við því að floti vélknúinna farartækja verði stærri í Kína en í Bandaríkjunum árið 2020. Íbúar í Kína eru fjórfalt fleiri en íbúar Bandaríkjanna. Eins og staðan er núna eru þó mun fleiri Kínverjar um hvern bíl en Bandaríkjamenn. Með bættum efnahag í Kína gæti þetta hlutfall dregist eitthvað saman.

Búist er við því að floti Kínverja muni telja 260 milljónir bíla árið 2020. Af þeim verði um fimm milljónir bíla rafbílar en aðrir bílar gangi fyrir eldsneyti. Búist er við því að hið opinbera muni hvetja til þess að fólk keyri á sparneytnum bílum með skattaívilnunum og öðrum slíkum inngripum.