Elon Musk kynnti í gær Tesla Model 3, nýjustu bifreið fyrirtækis síns, Tesla Motors. Bíllinn er algjörlega rafdrifinn, eins og allir aðrir bílar fyrirtækisins. Á einni hleðslu kemst bíllinn heila 340 kílómetra, en byrjunarverð hans er 4,5 milljónir króna. Áður hefur fyrirtækið selt bílana Tesla Roadster, Tesla Model S og Tesla Model X.

Þegar Musk stofnaði Tesla Motors var markmið hans að gera vel hannaða og góða rafbíla aðgengilega fyrir almenning. Hingað til hefur fyrirtækið aðeins framleitt lúxusbíla sem ekki allir hafa getað keypt sér, en með Model 3 hyggst Musk umbreyta bílaiðnaðinum í átt að sjálfbærri orkunotkun og rafmagnsknúnum bifreiðum.

Til að mynda er grunnverð Tesla Model S um tvöfalt hærra en Model 3, og þá áður en hann er skattlagður eða nokkrum aukahlutum bætt við hann. Þó svo að rafbílar séu niðurgreiddir að einhverju leyti af mörgum ríkisstjórnum víða um heim er bifreiðin samt sem áður mjög dýr.

Bíllinn mun hafa mikla hröðun - en hann mun komast frá núll kílómetra hraða á klukkustund upp í hundraðið á undir sex sekúndum. Pláss verður í honum fyrir fimm manns, og öryggismat gefur bílnum fimm stjörnur af fimm mögulegum. Þá mun Autopilot-sjálfstýrikerfi fyrirtækisins koma til með að spila einhvern þátt í Model 3.

Nú þegar hafa 135 þúsund manns lagt niður þúsund Bandaríkjadala greiðslu inn á forpöntun á bílnum - sem eru strax fleiri en Tesla hefur selt bíla til að svo stöddu - aðeins um 100 þúsund Tesla-bifreiðar hafa verið seldar, allt í allt. Áætlað er að framleiðsla hefjist á bílnum á næsta ári, ef allt gengur smurt fyrir sig.