Fyrsti Model 3 bíll rafmagnsbílaframleiðandans Tesla mun fara í framleiðslu strax á föstudag, sem er fyrr en væntingar höfðu verið um að því er eigandi og forstjóri fyrirtækisins, Elon Musk hefur greint frá. Bíllinn hefur að sögn Musk staðist allar öryggiskröfur og reglur tveim vikum á undan áætlun að því er fram kom í tísti hans seint í gær.

Í marsmánuði hafði hann sagt að stefnt væri að því að bíllinn myndi fara í framleiðslu í júlímánuði, og kæmust til fyrstu viðskiptavinanna undir lok ársins. Framleiðslan ætti að geta komist hratt á skrið, en stefnt er að því að 100 bílar verði framleiddir í ágúst en fleiri en 1.500 í september segir Musk.

„Það stefnir í að við getum framleitt um 20 þúsund Model 3 bílum á mánuði í desember,“ segir Musk. Model 3 bíllinn, sem Musk lýsir sem minni og ódýrari útgáfu af Model S bílnum, er talinn kosta um 35 þúsund dali, eða sem jafngildir um 3,6 milljónum króna.

Modes S bíllinn hefur hins vegar verið að lágmarki tvöfalt dýrari, en nú stefnir bílaframleiðandinn að auka framleiðsluna upp í um 500 þúsund bíla við lok ársins 2018, frá 84 þúsund bílum árið 2016. Nú þegar hafa um 400 þúsund viðskiptavinir greitt um 1.000 dala innborgun til að fá bílinn þegar hann verður tilbúinn að því talið er.