Brugghúsið Ölvisholt náði þeim áfanga í dag að tappað var á flöskur nýjum bjór, sem fengið hefur nafnið Röðull. Var greint frá þessu á Facebook síðu Ölvisholts í dag. Bjórinn er af tegundinni India Pale Ale, sem er eins og nafnið gefur til kynna ljóst öl en þessi undirtegund, sem gjarnan er kölluð IPA, er með meira magni af humlum en venjulegt ljóst öl.

India Pale Ale fékk nafnið vegna þess að öl af þessari gerð var flutt til Indlands handa enskum ríkisborgurum og hermönnum sem þar voru staddir á heimsveldistímanum. Sagan segir að þetta útflutningsöl hafi verið áfengara og með meira humlamagni en annað öl til að verja drykkinn skemmdum á hinni löngu sjóferð. Þessi söguskýring hefur hins vegar sætt gagnrýni og bent hefur verið á að porter-bjórar hafi verið fluttir frá Bretlandi til Indlands án skemmda.