Frönsk yfirvöld hafa tilkynnt um 15 milljarða evra björgunarpakka fyrir flugiðnaðinn í landinu. Ríkisstjórnin varaði við því að um 100 þúsund störf í iðnaðinum væru í hættu vegna lokana landamæra og annarra flugtakmarkanna vegna heimsfaraldursins.

Björgunarpakkinn, sem hefur þegar verið samþykktur af ríkisstjórn, felur meðal annars í sér sjö milljarða evra lán til Air France-KLM. Franska ríkið lánar flugfélaginu 3 milljarða evra beint og viðskiptabankar landsins lána 4 milljarða til viðbótar en þau lán eru bera þó ríkisábyrgð.

Um 300 þúsund manns starfa beint eða óbeint í flugiðnaðinum í Frakklandi sem hefur um 58 milljarða evra í árlegar tekjur. Franski seðlabankinn spáði fyrr í vikunni um að franska hagkerfið myndi dragast saman um 10% í ár jafnvel þó landsframleiðsla vaxi á seinni helmingi ársins.

Sjá einnig: Er Toulouse að breytast í Detroit?

Franska ríkið mun fjárfesta 300 milljónir evra í nútímavæðingu aðfangakeðju flugvélaframleiðslu. Einnig verða 500 milljónir evra lagðar í nýjan fjárfestingarsjóð sem sem mun aðstoða við þróun smárra og meðalstórra fyrirtækja í fluggeiranum. Franska ríkið mun leggja fram 200 milljónir evra og fyrirtæki á borð við Airbus, Thales og Safran munu setja aðrar 200 milljónir evra í fjárfestingarsjóðinn. Félagið sem rekur sjóðinn mun einnig fjárfesta um 100 milljónir evra.

Franska ríkið tilkynnti líka um 1,5 milljarða evra fjárfestingu í rannsóknir og nýsköpun á umhverfisvænni flugvélum. Einnig verður atvinnuleysisbótakerfi geirans styrkt og útflutningsfyrirtækjum boðin meiri vernd gegn greiðslufalli kaupenda. Flugvélapöntunum hersins hefur jafnframt verið flýtt.

„Við verðum að bjarga flugiðnaðinum okkar og koma í veg fyrir að tapa markaðshlutdeild til samkeppnisaðila líkt og Boeing í Bandaríkjunum eða Comac í Kína,“ er haft eftir Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, í frétt Financial Times .

Þetta er þriðji björgunarpakki Frakka sem er sniðinn að ákveðnum iðnaði. Ríkisstjórnin hafði áður tilkynnt um 18 milljarða evra pakka fyrir ferðamannaiðnaðinn og 8 milljarða evra stuðning við bílaiðnaðinn.