RIM, kanadíska fyrirtækið sem framleiðir BlackBerry símana, mun svara samkeppni frá iPhone símanum frá Apple með því að setja nýja gerð síma, Blackberry Bold, á markað í sumar.

Samkvæmt frétt Guardian fékk BlackBerry Bold góðar viðtökur frá tæknisérfræðingum þegar síminn var kynntur á ráðstefnu í Flórída. Hlutabréf RIM hækkuðu um 4,7% þegar símnin var kynntur.

BlackBerry Bold er búinn lyklaborði líkt og sá BlackBerry sími sem nú er á markaði, en iPhone er hins vegar með snertiskjá.

Forseti RIM, Mike Lazaridis, sagði viðskiptamenn fyrirtækisins frekar vilja hafa lyklaborð en snertiskjá. „Fólk segir okkur að hvað sem við gerum, alls ekki taka lyklaborðið“ sagði Mike samkvæmt frétt Guardian.

BlackBerry Bold síminn hefur 624 MHz örgjörva og getur sótt viðhengi við tölvupóst hraðar en forveri hans á markaði. Einnig getur hann sótt tónlist gegnum iTunes forritið.

Apple setti upp 100 milljóna Bandaríkjadala sjóð í mars til að styrkja frumkvöðla til að þróa valmöguleika fyrir iPhone.

RIM byrjuðu í gær ásamt Thomson Reuters fjölmiðlafyrirtækinu að stofna 150 milljóna dala sjóð til að styrkja þá sem vilja þróa tækni fyrir BlackBerry símana.