Uppfærður útgöngusamningur Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, úr Evrópusambandinu, var felldur með miklum meirihluta í neðri deild breska þingsins í gær. Kosið verður síðar í dag um hvort yfirgefa skuli sambandið samningslaust þann 29. mars næstkomandi, og á fimmtudag um hvort sækja skuli um frest á útgönguferlinu.

Hinn uppfærði samningur var felldur með 391 atkvæði gegn 242, en þar af kusu 75 samflokksmenn hennar gegn samningnum. Kosningin er eitt reiðarslagið fyrir May, en munurinn var þó minni en þegar met var sett á breska þinginu þegar upphaflegi Brexit-samningurinn var felldur í janúar .

Breytingarnar fólust í því að forseti framkvæmdastjórnar Evrópu, Jean-Claude Juncker, fullvissaði Breta á „lagalega bindandi hátt“ um að hin umdeilda Norður-írska varaáætlun yrði tímabundin. Í gærmorgun gaf yfirlögfræðingur ríkisstjórnar May hinsvegar út lögfræðiálit þar sem hann sagði yfirlýsingar Juncker hafa „dregið úr“ áhættu á að landið festist inni í tollabandalagi Evrópusambandsins, en lagaleg óvissa væri enn til staðar.

Juncker sagði í kjölfar atkvæðagreiðslunnar í gær að sambandið gæti ekkert aðhafst frekar. Lausn málsins yrði aðeins fundin í London.

Umfjöllun Financial Times.
Umfjöllun BBC.