*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 8. október 2020 12:42

Nýr Brúarfoss afhentur á morgun

Eimskip hyggst taka nýtt skip í notkun seinni hluta nóvember. Hafa beðist afsökunar á afdrifum eldri skipa.

Ritstjórn
Gamli Brúarfoss siglir hér inn í Ísafjörð, en samnefndur bær er framundan til hægri, þó hann liggi í Skutulsfirði, einum innfjarða Ísafjarðar eða Ísafjarðardjúps eins og hann kallast nú. Beint framundan er fjallið Ernir og Arnardalur.

Eimskipafélag Íslands hyggst taka í notkun nýtt gámasiglingakerfi strax í næstu viku sem leysir af hólmi það sem sett var á í vor vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Jafnframt fær félagið afhendan nýjan Brúarfoss sem er seinna af tveimur nýjum skipum félagsins sem verið hafa í smíðum í Kína, en þriðja skipið var afhent samstarfsaðilum hjá Royal Arctic line.

„Það eru ánægjuleg tímamót hjá okkur að loks sé komið að þeim tímapunkti að við fáum seinni nýsmíðina okkar, Brúarfoss, afhenta og að samstarfið við Royal Arctic Line komist í fulla virkni,“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri Eimskipafélags Íslands.

„Með þessu kerfi mun Eimskip halda áfram sinni framúrskarandi þjónustu í siglingum milli Íslands, Færeyja og lykilhafna í Skandinavíu, Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada auk Nuuk á Grænlandi í samstarfi við Royal Arctic Line.“

Áætlað er að nýja skipið komi í þjónustu Eimskipafélagsins í seinni hluta nóvember, en þar með verður samstarf íslenska skipafélagið við hið grænlenska Royal Arctic Line komið í fulla virkni ásamt með hinu nýja skipi Eimskip, Dettifossi.

Kært vegna afdrifa eldri skipa

Eimskipafélagið hefur þegar beðist afsökunar á afdrifum tveggja eldri skipa sem seld voru þekktum milliliði sem kom þeim í niðurrif í alræmdum skipakirkjugarði í Alang á Indlandi. Vegna málsins lenti félagið í kastljósi sjónvarpsþáttarins Kveiks en samhliða kærði Umhverfisstofnun félagið fyrir meint brot á lögum um meðhöndlun úrgangs vegna endurvinnslu skipanna.

Með nýja skipinu verða samtals sjö gámaskip í rekstri Eimskipafélagsins í siglingum  á milli Íslands, Færeyja, Grænlands og hafna í Skandinavíu og Evrópu. Að auki er Tukuma Arctica, skip Royal Arctic Line, í samsiglingum á milli Grænlands og Skandinavíu með viðkomu á Íslandi og í Færeyjum.

Þá verða áfram þrjú gámaskip í siglingum á milli Íslands og Norður Ameríku til að tryggja vikulega þjónustu. Áætlaður heildarkostnaður við siglingakerfið er sambærilegur við það sem nú er.

Hér má lesa eldri fréttir um Eimskipafélag Íslands: