Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur í samstarfi við líkamsræktar- og heilsufrömuðina Arnar Grant og Ívar Guðmundsson þróað nýja vörulínu af próteindrykkjum úr jurtamjólk. Drykkurinn hefur hlotið nafnið Teygur, sem er skírskotun í að neytendur hans skelli honum í sig í einum teyg - svo góður sé drykkurinn.

Að sögn Stellu Bjargar Kristinsdóttur, forstöðumanns sölu-, markaðs- og vöruþróunar hjá mjólkursamlagi KS, hefur drykkurinn verið í þróun í tæpt ár og munu landsmenn koma til með að geta nálgast drykkinn í verslunum strax í næsta mánuði.

Drykkur sem samræmist nútímakröfum

Stella segir að Arnar og Ívar hafi upphaflega leitað til KS fyrir rúmu ári, með það í huga að hefja samstarf um þróun próteindrykkjarins.

„Þessari hugmynd þeirra var vel tekið og ákveðið var að hefjast handa við að þróa drykkinn. Markmiðið með hönnun Teygs var að framleiða bragðgóðan næringardrykk sem einnig uppfyllti alþjóðlega staðla sem næringardrykkur. Arnar og Ívar lögðu til alla sína sérþekkingu en þeir hafa áður komið próteindrykknum vinsæla Hámarki út á markaðinn. Þeir vildu þróa þennan drykk þannig að hann samræmdist nútímakröfum og léku því stórt hlutverk í því að þróa bragð og innihaldsefni drykkjarins. Haft var að leiðarljósi að drykkurinn myndi henta öllum. Sökum þess er hann úr baunaprótein og hentar því einnig vegan neytendum. Sífellt fleiri Íslendingar kjósa að taka upp þann lífsstíl og meðvitund fólks er orðin þannig að áhugi þess á að taka til sín prótein úr jurtaríkinu hefur aukist verulega. Við vorum því öll sammála um að það væri kominn tími til að setja vegan próteindrykk út á markaðinn."

Tvær bragðtegundir til að byrja með

Að sögn Stellu er þónokkur munur á Teyg og öðrum næringardrykkjum sem þegar eru fáanlegir á markaðnum.

„Teygur er í grunninn annars vegar unninn úr möndlumjólk og hins vegar haframjólk. Einungis er notast við baunaprótein í drykkinn, en það er talið vera besta próteinið sem völ er á innan jurtaríkisins.Bæði möndludrykkurinn og hafradrykkurinn munu vera fáanlegir með tveimur mismunandi bragðtegundum, súkkulaðibragði annars vegar og hins vegar súkkulaði- og kókosbragði. Síðar meir sjáum við vel fyrir okkur að gefa út fleiri bragðtegundir en við viljum byrja á að sjá hvernig markaðurinn tekur við drykknum, áður en farið verður að þróa fleiri bragðtegundir," segir Stella. Hún bætir við að síðar meir komi einnig til greina að selja drykkinn í eins lítra fernum, þar sem fólk noti mikið hafra- og möndlumjólk til að búa til hina svokölluðu boozt-drykki.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fyrsta nýja bragðtegund Royal í yfir hálfa öld hefur fallið vel í kramið hjá landsmönnum
  • Verðhrun á Nordpool raforkumarkaðnum gæti sett strik í reikninginn hjá Landsvirkjun
  • Tekið verður á kennitöluflökkum ef nýtt frumvarp verður að lögum
  • Bankastjóri Arion banka ræðir nýja grænstefnu bankans
  • Áhrif COVID-19 veirunnar frá Wuhan í Kína er sett undir smásjána
  • Skuggabankastarfsemi færist í aukana
  • Kristinn Hafliðason, framkvæmdastjóri Algaennovation er í ítarlegu viðtali
  • Breskt félag sem skráð er á markað í London týndi meirihluta bréfa sinna í íslensku félagi
  • Elísa Dögg Björnsdóttir, nýr framkvæmdastjóri TVG Zimsen er tekin tali
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um þaulsetu Bjarna Ben.