Þeir sem standa að nýjum eigendahópi að Olíuverslun Íslands, Olís, ætla að gefa sér næstu vikur til þess að móta hópinn endanlega. Landsbankinn og Olís hafa náð samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins og er það að fullu fjármagnað. Olís tilkynnti um samkomulagið síðastliðinn föstudag. Það felur í sér að lán eru niðurfærð að hluta, gegn því að nýtt hlutafé er sett inn í félagið. Enn fremur kemur fram að nýr hluthafahópur sé ekki að fullu mótaður.

Olís hefur allt frá hruni verið í gjörgæslu hjá Landsbankanum vegna mikilla skulda. Bankinn krafðist nýs eigin fjár og sér nú fyrir endann á þeirri fjármögnun. Viðskiptablaðið greindi frá því skömmu fyrir áramót að meðal þeirra sem koma að félaginu eru Samherji og Fish Seafood, félag Kaupfélags Skagfirðinga. Stefnt er að dreifðu eignarhaldi og byggir aðkoma þessara aðila meðal annars á að svo verði. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að búist sé við að hlutur Samherja verði ekki mikið stærri en um 20%. Núverandi eigendur, þeir Gísli Baldur Garðarsson lögfræðingur og Einar Benediktsson, forstjóri Olís, verða áfram í eigendahópi.

Ekki náðist í Einar Benediktsson við vinnslu fréttarinnar. Þær upplýsingar fengust frá Olís að hann verði ekki við fyrr en í byrjun febrúar. Landsbankinn vildi ekki greina frá í hverju uppgjörið við Olís felst nákvæmlega. Hlutafjáraukningin er háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.