Skúli Mogensen og hópur tengdur Þorsteini Má Baldvinssyni eru í viðræðum um að eignast stóran hlut í MP Banka. Ennfremur standa yfir samningsviðræður við nokkra lífeyrissjóði um að koma að myndun nýs eigendahóps bankans, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Áður en af kaupunum verður mun MP Banka verða skipt upp í tvennt og flestir núverandi hluthafar hans fara út úr eigendahópi hans. Erlendar fjárfestingaeignir verða settar inn í nýtt fjárfestingarfélag og núverandi hluthafar, undir forystu Margeirs Péturssonar, munu taka yfir erlenda starfsemi bankans og taka við eignum og skuldum sem tengjast Úkraínu.

Eftir mun standa viðskiptabankahluti MP Banka sem nýir hluthafar geta eignast 76% hlut í gegn þriggja milljarða króna eiginfjárframlagi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.