Frumtak hefur stofnað nýjan sjóð, Frumtak 2. Þessi nýi fimm milljarða króna sjóður mun fjárfesta í fyrirtækjum „sem hafa á að skipa öflugum teymum sem geta verið leiðandi á sínu sviði og um leið skilað góðri ávöxtun til fjárfesta." segir í tilkynningu. Hluthafar í hinum nýja sjóði eru tíu lífeyrissjóðir, einn banki og umsýsluaðili sjóðsins.

Fjárfestingastjórar hins nýja sjóðs eru Eggert Claessen og Svana Gunnarsdóttir en þau hafa bæði verið fjárfestingastjórar Frumtaks frá byrjun.

„Þau eru bæði frumkvöðlar og eiga að baki farsælan feril í rekstri eigin fyrirtækja og þekkja því vel heim frumkvöðulsins," segir í tilkynningu. „Þau hafa í starfi sínu hjá Frumtaki setið í stjórnum þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn hefur fjárfest í og tekið virkan þátt í að byggja upp farsæl fyrirtæki með stjórnendum þeirra eins og DataMarket, Meniga, Mentor, Controlant, Cintamani og fleiri. "

„Það er mikil gróska í fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja þessa dagana og mörg athyglisverð fjárfestingatækifæri," segir Eggert í tilkynningu. „Það hefur sýnt sig í fjárfestingum Frumtaks að þessi fyrirtæki skapa fjölda áhugaverðra starfa sem eykur fjölbreytni í atvinnumálum og sala á vörum þeirra og þjónustu erlendis eykur gjaldeyristekjur þjóðarinnar.  Stofnun þessa nýja sjóðs staðfestir að það er mikill og almennur skilningur á því að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið, sérstaklega þeim sem byggja á íslensku hugviti og þeim mannauð sem við eigum."

„Lykilatriði hjá Frumtaki er að eiga gott samstarf við stjórnendur fyrirtækjanna því þetta getur verið löng vegferð þar sem gagnkvæmt traust er forsenda þess að vel takist til," er haft eftir Svönu í tilkynningu frá Frumtaki. „Bakgrunnur okkar og reynsla verður fyrirtækjunum að liði því að fjármagnið eitt og sér dugar ekki til."