Century Aluminum, móðurfélag Norðuráls, hefur ráðið til sín Rick T. Dillon sem nýjan fjármálastjóra félagsins. Í tilkynningu til  Kauphallarinnar kemur fram að Dillon verður með árslaun upp á 400 þúsund dollara eða sem samsvarar um 45,5 milljónum íslenskra króna á ári.

Þá fellur Dillon undir fyrirkomulag sem gildir um árangurstengdar greiðslur þar sem miðað er við að bónusgreiðslur nemi
um 70% af árslaunum á hverju ári. 70% af árslaunum Dillons eru um 280 þúsund dollarar eða tæpar 32 milljónir íslenskra króna. Dillon fær einnig 200 þúsund dollara bónus, um 23 milljónir króna, við undirskrift sem hann þarf þó að endurgreiða ef hann hættir hjá Century innan tveggja ára.

Þá mun Dillon einnig eiga rétt á að fara inn í langtíma kaupaukakerfi Century þar sem miðað er við að verðmæti slíkra greiðslna sé um 120% af árslaunum fyrir hvert ár.