Lina Khan verður næsti stjórnarformaður Samkeppnis- og neytendastofu Bandaríkjanna (e. FTC). Khan hlaut hlaut staðfestingu Bandaríkjaþings sem einn af fimm stjórnarmönnum í síðustu viku, og Joe Biden forseti útnefndi hana í kjölfarið sem formann stjórnar.

Á ferli sínum hefur Khan, sem er 32 ára, tekið fyrir fákeppni og einokunartilburði á mörkuðum frá flugi til fiðurfjár, en nýverið hefur hún talað ákaft fyrir hertu samkeppniseftirliti og reglum gagnvart tæknirisum. Því er búist við að stofnunin muni nú beina sjónum sínum að þeim sérstaklega.

Tilkynningin um formennsku Khan er sögð hafa valdið nokkrum usla í stjórnmála-, fjármála- og tækniheiminum vestanhafs. Í frétt Financial Times er haft eftir stjórnanda fjármálafyrirtækis að Khan „sé komin með hamarinn og sjái ekkert nema nagla“.