Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi, hefur verið skipaður formaður átta manna kvikmyndaráðs af Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Samkvæmt kvikmyndalögum er kvikmyndaráð stjórnvöldum og Kvikmyndamiðstöð Íslands til ráðgjafar um málefni kvikmynda og gerir tillögur til ráðherra um stefnu og markmið opinberra aðgerða á sviði kvikmyndalistar.

„Sem listgrein stendur kvikmyndagerð á tímamótum. Hér á landi hefur mótast burðug atvinnugrein sem stenst fyllilega alþjóðlegan samanburð. Árangurinn er staðfestur með vaxandi fjölda tilnefninga og þátttöku íslenskra kvikmynda á virtum hátíðum um allan heim.

Fleiri íslenskir leikstjórar og höfundar feta inn á nýjar og ótroðnar slóðir og okkur er ljúft og skylt að tryggja bestu mögulegu aðstæður fyrir íslenska kvikmyndagerð til að vaxa og dafna,“ er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur í fréttatilkynningunni.

Ráðherra skal skipa átta fulltrúa í kvikmyndaráð til þriggja ára í senn, formann án tilnefningar, en hina sjö samkvæmt tilnefningum. Auk Sigurjóns eru í ráðinu Margrét Örnólfsdóttir, varaformaður og tilnefnd af Félagi leikskálda og handritshöfunda, Anna Þóra Steinþórsdóttir tilnefnd af Félagi kvikmyndagerðarmanna, Lilja Ósk Snorradóttir tilnefnd af Framleiðendafélaginu - SÍK, Ragnar Bragason tilnefndur af Samtökum kvikmyndaleikstjóra, Lilja Ósk Diðriksdóttir tilnefnd af Félagi kvikmyndahúsaeigenda, Bergsteinn Björgúlfsson tilnefndur af Bandalagi íslenskra listamanna og Birna Hafstein tilnefnd af Félagi íslenskra.