Antonis Samaras, nýi gríski forsætisráðherrann, mun ekki geta tekið þátt í leiðtogafundi Evrópusambands sem fram fer í vikulok.

Samaris fór í aðgerð á augum á laugardag og þó aðgerðin hafi heppnast vel mun taka hann nokkra daga að jafna sig. Þar af leiðandi mun Samaris missa af sínum fyrsta leiðtogafundi en hann tók við embætti forsætisráðherra síðastliðinn miðvikudag. Samaris fer fyrir þriggja flokka ríkisstjórn Grikkja og mun nýr utanríkisráðherra, Dimitris Avramopoulos, sækja fundinn í hans stað.

Þá hefur eftirlitsferð lánveitenda Grikkja verið frestað en fulltrúar ESB, Evrópska seðlabankans og AGS áttu að heimsækja grísk yfirvöld í dag. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC í dag.

Mikill þrýstingur er á Grikki að standa við skilyrði þeirra neyðarlána sem þeim hafa verið veitt. Meðal Grikkja hafa staðið deilur um þessa skilmála en tveir þeirra flokka sem nú sitja í ríkisstjórn hafa verið hlynntir áframhaldandi niðurskurði og tilraunum til að fylgja skilmálunum.

Ný ríkisstjórn hefur þó sagst vilja draga úr þeim kröfum sem lánveitendur hafa sett fram. Meðal þess sem stjórnin segist ætla að sækjast eftir eru tvö ár til viðbótar til að ná takmörkum um jafnvægi í ríkisfjármálum, eða árið 2016 í stað 2014.