Kyriakos Mitsotakis, leiðtogi evrópusinnaða íhaldsflokksins Nýtt lýðræði, í Grikklandi sem fór með sigur af hólmi í þingkosningunum í landinu í gær hefur svarið embættiseið. Jafnframt hefur hann skipað nýja ríkisstjórn í landinu, en einungis tveir nýju ráðherranna eru kvenkyns, það er Niki Kerameus menntamálaráðherra og Lina Mendoni menningarmálaráðherra.

Í kosningabaráttunni lofaði Mitsotakis, sem kemur af einni helstu stjórnmálafjölskyldu landsins, að takast á við spillingu og staðnað efnahagslíf í landinu, auk þess að tryggja lög og reglu, en mikið hefur mætt á landinu vegna stríðs straums hælisleitenda yfir Adríahafið. Þó flokkurinn fengi einungis 39,85% atkvæða, eða tæplega 12 prósentustigum fleiri en í síðustu kosningum árið 2015, hefur hann samt sem áður hreinan meirihluta, eða 158 sæti af 300 á gríska þinginu.

Er ástæðan sú að enn eru í gildi kosningalög sem breytt var á síðasta þingi en taka ekki gildi fyrr en í næstu kosningum, sem veita stærsta flokknum 50 auka þingsæti. Hinum 250 þingsætunum er skipt hlutfallslega eftir fylgi í landinu öllu, þó þingsætunum sjálfum sé svo úthlutað á fjölmörg misstór kjördæmi sem fara eftir héröðum landsins, þar sem það stærsta, úthverfi Aþenuborgar er með 42 þingsæti, en þau minnstu eru með að lágmarki eitt þingsæti.

Næst stærstur var valdaflokkur síðustu fjögurra ára, Syriza flokkur Alexis Tsipras forsætisráðherra, en samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn, hægriflokkurinn Sjálfstæðis Grikkir buðu ekki fram í kosningunum nú.

Hlaut róttæki vinstriflokkurinn Syriza nú 31,53% atkvæða sem er um 4 prósentustigum færri atkvæði en síðast, en vegna kosningalaganna tapaði flokkurinn hins vegar 59 þingsætum, og hlaut 86.

Flokkurinn komst til valda með loforðum um að hlýta ekki skilyrðum ESB um greiðslu á skuldaklafa gríska ríkisins og að viðhalda velferðargreiðslum ríkisins, en að lokum samþykkti flokkurinn skilyrði sambandsins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um aðhaldsaðgerðir og skuldameðferð. Hafa margir stuðningsmenn sem og forystumenn snúið baki við flokknum út af því.

Þriðji stærsti flokkurinn var svo Hreyfing fyrir breytingum, bandalag flokka vinstra megin við miðju, þar af er stærstur sósíaldemókrataflokkurinn Pasok, sem fyrir efnahagshrunið 2008 var annar stærsi flokkur landsins og skiptist á um að hafa stjórnartaumana við Nýja lýðræðisflokkinn.

Fjórði stærsti flokkurinn var Kommúnistaflokkur Grikklands, elsti starfandi flokkur landsins, en hann var stofnaður 1918 og hlaut nú 5,3% atkvæða, og 15 þingsæti.

Nýir efasemdarflokkar um ESB til hægri og vinstri

Tveir nýir flokkar til komust til viðbótar inn á þingið, annars vegar Gríska lausnin, þjóðernissinnaður efasemdarflokkur um Evrópusambandið sem hlaut 3,7% atkvæða og 10 þingsæti, en hann var stofnaður af fyrrum þingmanni Rétttrúnaðarfylkingar þjóðarinnar.

Sá flokkur hafði líkt og Pasok stutt skuldameðferð ESB sem fólst í því að landinu var lánað fyrir afborgunum skulda ríkisins svo skuldabréfaeigendur þyrftu ekki að líða fyrir óvarkárar lánveitingar, og hvarf af þingi í seinni af tveim kosningum sem haldin voru hið róstursama ár 2012 í grískum stjórnmálum.

Í fyrri kosningum þess árs komst hins vegar inn á þing þjóðernissósíalíski öfgaflokkurinn Gullna dögunin, sem missti nú öll 18 þingsæti sín því var rétt undir 3% lágmarkinu inn á þing.

Eiginmaður innblástursins að „Common people“ leiðir nýjan flokk

Síðasti flokkurinn til að komast á þingið nú var flokkur fyrrum fjármálaráðherra Grikklands í ríkisstjórn Syrisa, Yanis Varoufakis, MeRa25, sem er stytting fyrir Evrópsk fylking raunsæs óhlýðnis. Hlaut flokkur hans, bandalag vinstrisinna, frjálslyndra og græningja vill endurskipuleggja skuldir ríkisins, 3,44% atkvæða og 9 þingsæti.

Þess má geta að uppi eru getgátur um að eiginkona Yanis, Danae Stratou, sé innblásturinn af slagara Pulp, Common People, en hún er dóttir grísks iðnjöfurs og var í námi í höggmyndagerð í sama skóla og Jarvis Cocker segist hafa hitt manneskjuna sem vildi prófa að lifa eins og venjulegt fólk.