Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA tilkynnti í dag á vefsíðu sinni að nýr forseti sambandsins verði kosinn þann 26. febrúar næstkomandi á aukaþingi í Zurich, Sviss.

Sepp Blatter hefur verið forseti FIFA frá árinu 1998 og hlotið endurkjör árin 2002, 2007, 2011 og nú síðast á þessu ári. Stuttu eftir að hann var endurkjörinn boðaði hann hins vegar afsögn sína, en hann er gríðarlega óvinsæll í knattspyrnuheiminum og oft tengdur við spillingu.

Athyglisvert verður að sjá hver tekur við af Blatter, en Michel Platini forseti UEFA hefur verið hvattur til að bjóða sig fram. Hefur hann verið mjög gagnrýninn á FIFA undanfarin ár og sagði á dögunum að Blatter ætti að draga forsetaframboð sitt til baka. Það gerði Svisslendingurinn ekki en hann var hins vegar fljótur að segja af sér eftir að hafa unnið kjörið.

Á blaðamannafundi FIFA í dag vakti það mikla athygli þegar breski grínistinn Lee Nelson kastaði peningaseðlum yfir Blatter . Var forsetanum alls ekki skemmt.