Bob Benmosche, nýr forstjóri bandaríska tryggingarisans American International Group (AIG) gæti fengið allt að 13,5 milljónir dala í laun og launatengdar greiðslur fyrsta árið sitt sem forstjóri félagsins.

Málið hefur vakið nokkra umræðu vestanhafs en sem kunnugt er björguðu bandarísk stjórnvöld rekstri AIG síðastliðið haust með 85 milljarða dala fjárframlagi gegn því að fá um 80% hlut í félaginu.

Benmosche er fyrrverandi forstjóri líftryggingafélagsins MetLife en sem fyrr segir hefur ráðningasamningur hans vakið upp reiði sem kraumað hefur varðandi launagreiðslur til æðstu stjórnenda fjármála- og tryggingafélaga.

Rétt er að geta þess að fyrirrennari hans í starfi, Ed Liddy fékk greiddan einn dal fyrir störf sín á síðasta ári. Hann hafði þó fengið ríkulega greitt fram að því og var látinn fara frá félaginu í vor.

Benmosche, sem hóf störf í síðustu viku, hefur þegar sagt að hann muni halda áfram á þeirri braut sem Liddy hafði lagt fyrir félagið, þ.e. að selja eignir og minnka umsvif félagsins. Með því trúa stjórnendur að hægt verði að snúa rekstri AIG við.

Beinar launagreiðslur til Benmosche munu nema 7 milljónum dal á ári sem skiptast þannig að hann fær um 3 milljónir í greidd laun og 4 milljónir dala í formi hlutabréfa í félaginu. Þá á hann kost á bónusgreiðslum fyrir vel unnin störf upp á um 3,5 milljónir dala sem greiðast út í hlutabréfum. Þá á hann kost á forkaupsrétti hlutabréfa að verðmæti 3 milljónir dala.

Benmosche fær þó engar starfslokagreiðslur, hver svo sem ástæða fyrir brottför hans frá félaginu veðrur.

Ráðningasamningur Benmosche hefur þegar verið samþykktur í grófum dráttum af Kenneth Feinberg, sem vestanhafs gengur undir nafninu launakeisarinn, en hann var fenginn af ríkisstjórn Obama til að fara yfir og taka ákvarðanir um launagreiðslur til þeirra félaga sem þegið hafa neyðarlán frá yfirvöldum, þar á meðal AIG.