© Aðsend mynd (AÐSEND)

Lárus Blöndal Sigurðsson, einn af eigendum Bílanausts, hefur tekið við sem forstjóri fyrirtækisins af Árna Stefánssyni. Eins og fram kom í gær hefur Árni verið ráðinn forstjóri Húsasmiðjunnar . Lárus var í forsvari tveggja fjölskyldna sem keypti rekstur Bílanausts af N1 fyrir mánuði.

Lárus hefur starfað á fjármálamarkaði síðan árið 1996, m.a. hjá FBA og Íslandsbanka en alið manninn síðastliðin 12 ár í Lúxemborg. Þar vann hann hjá Kaupþingi og síðar Banque Havilland. Hann sagði í samtali við vb.is í tengslum við kaupin í síðasta mánuði að hann hafi snúið aftur heim með fjölskyldu sinni síðastliðið sumar, ákvað að söðla um og leitað fyrir sér að nýjum verkefnum utan fjármálageirans.

Eins og fram kom á vb.is í tengslum við kaupin er Lárus bróðir handboltakappans Dags Sigurðssonar , fyrrverandi landsliðsmanns, sem þjálfar þýska úrvalsdeildarliðið Fusche Berlin. Fjölskyldur þeirra Dags koma að kaupunum ásamt fjárfestingarfélaginu Sundagarðar ehf, sem kaupir meirihluta og verður kjölfestufjárfestir í verkefninu. Eigendur Sundagarða eru Gunnar Gíslason, fyrrverandi stjórnarmaður í SPRON, og fjölskylda hans. Félagið átti árið 2011 m.a. hlutabréf í CCP, Dohop, Mata og Valiant Petroleum, sem í fyrravetur fékk ásamt fleiri félögum sérleyfi fyrir rannsóknir og vinnslu kolvetnis (olíu og gass) á Drekasvæðinu.