Eggert Benedikt Guðmundsson, sem verið hefur markaðsstjóri, verður forstjóri HB Granda hf. Sturlaugur Sturlaugsson, sem verið hefur forstjóri, og Kristján Þ. Davíðsson, sem verið hefur aðstoðarforstjóri, láta af störfum hjá fyrirtækinu.

Í kjölfarið á sameiningu HB Granda hf. við Tanga hf. og Svan RE-45 ehf. hefur stjórn HB Granda hf. gert breytingar á yfirstjórn fyrirtækisins. Með breytingunum er lögð enn frekari áhersla á markaðsmál fyrirtækisins og fylgt eftir þeirri stefnu sem mörkuð var á síðasta ári með stofnun sérstakrar markaðsdeildar.

Svavar Svavarsson, sem verið hefur framleiðslustjóri, verður markaðsstjóri. Vilhjálmur Vilhjálmsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Tanga hf., verður yfirmaður uppsjávarsviðs. Torfi Þorsteinsson, sem verið hefur yfirmaður uppsjávarsviðs, verður yfirmaður landvinnslu bolfisks. Stofnað hefur verið nýtt svið viðskiptaþróunar, sem mun ná yfir starfsemi fyrirtækisins í fiskeldi, sem og ný rannsókna- og þróunarverkefni. Ekki hefur verið ráðið í stöðu forstöðumanns þess sviðs. Aðrar stöður yfirstjórnenda verða óbreyttar.

Eggert Benedikt Guðmundsson er Dipl.-Ing. í rafmagnsverkfræði frá háskólanum í Karlsruhe, Þýskalandi, og MBA frá IESE viðskiptaháskólanum í Barcelona á Spáni. Eggert starfaði sem verkfræðingur hjá Íslenska járnblendifélaginu árin 1990-1995. Að námi í IESE loknu vorið 1997 hóf Eggert störf hjá Philips Electronics í Belgíu, en flutti sumarið 2000 til Philips í San José, Kaliforníu. Hjá Philips vann Eggert við vörustjórnun, markaðsstjórnun og viðskiptaþróun. Frá Kaliforníu flutti hann til Íslands í júní 2004 og hóf þá störf sem markaðsstjóri HB Granda.

Eggert er kvæntur Jónínu Lýðsdóttur hjúkrunarfræðingi og á þrjú börn.