Í Viðskiptaþættinum sem hefst klukkan 16 á Útvarpi Sögu FM 99,4, verður rætt við Jón Sigurðsson forstjóra Össurar um uppgjör félagsins, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Actavis ræðir um framrás félagsins á Indlandi, spjallað verður við nýjan forstjóra HB Granda, Eggert Benedikt Guðmundsson, og Sigrún Kjartansdóttir, forstöðumaður markaðs- og sölusviðs hjá Íslandsbanka, segir frá mastersverkefni sínu ?Eru fyrirtæki á íslenskum hlutabréfamarkaði að upplýsa um þekkingarverðmæti sín."

Þátturinn hefst á umfjöllun um uppgjör Össurar, en Landsbankinn segir uppgjörið gott en góður vöxtur var hjá félaginu á fjórða ársfjórðungi. Vöxtur á Bandaríkjamarkaði, sem er stærsti markaður félagsins, er þó áfram tiltölulega lítill að sögn Landsbankans. Við fáum að heyra hvað Jón Sigurðsson hefur um rekstur síðasta árs hjá Össuri að segja og hvernig hann metur framtíðarrekstrarhorfur félagsins.

Actavis hefur aukið umsvif sín á Indlandi með því að hefja samstarf við indversk fyrirtæki. Actavis hefur keypt lyfjarannsóknarfyrirtækið Lotus fyrir 1600 milljónir króna og jafnframt gert samstarfssamning við samheitalyfjafyrirtækið Emcure um framleiðslu á samheitalyfjum fyrir Bandaríkjamarkað. Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Actavis, ætlar að segja okkur nánar frá auknum umsvifum Actavis á Indlandi.

Um klukkan hálf fimm verður rætt við nýjan forstjóra HB Granda, Eggert Benedikt Guðmundsson, en hann sest í stól forstjóra félagsins í kjölfar skipulagsbreytinga hjá félaginu, en Sturlaugur Sturlaugsson, sem verið hefur forstjóri, og Kristján Þ. Davíðsson, sem verið hefur aðstoðarforstjóri, láta af störfum hjá fyrirtækinu. Eggert Benedikt Guðmundsson er Dipl.-Ing. í rafmagnsverkfræði frá háskólanum í Karlsruhe, Þýskalandi, og MBA frá IESE viðskiptaháskólanum í Barcelona á Spáni. Hann flutti til landsins síðastliðið sumar frá Kaliforníu og hóf þá störf sem markaðsstjóri HB Granda.

Þættinum lýkur á umfjöllun um það hvort fyrirtæki á íslenskum hlutabréfamarkaði séu að upplýsa um þekkingarverðmæti sín. Sigrún Kjartansdóttir, forstöðumaður markaðs- og sölusviðs hjá Íslandsbanka velti þessu fyrir sér í mastersverkefni við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, og ætlar hún að reifa helstu niðurstöður rannsóknar sinnar í þættinum.

Þátturinn verður endurfluttur klukkan eitt í nótt og á fimmtudaginn milli 16 og 17.