Stephen Elop er hættur sem forstjóri farsímarisans Nokia. Rajeev Suri, innanbúðarmaður hjá Nokia, hefur tekið við starfi hans. Nokkuð er um liðið síðan bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft lagði fram tilboð í farsímahluta Nokia. Kaupin gengu í gegn á föstudag í síðustu viku og varð Nokia þá að farsímahluta Microsoft. Elop tók í kjölfarið við stöðu framkvæmdastjóra hjá tækjahluta Microsoft.

Hjá Nokia stendur eftir annað en farsímaframleiðslan í Finnlandi og mun fyrirtækið ætla að einbeita sér að ýmsum tæknimálum, s.s. kortagerð og einkaleyfasölu.

Rajeev Suri er 46 ára og hefur hann unnið hjá Nokia síðastliðin 20 ár.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir í umfjöllun sinni um Nokia að stjórn fyrirtækisins hafi ákveðið að greiða hluthöfum sérstakan arð í tengslum við söluna á tækjahluta fyrirtækisins. Microsoft greiddi 5,44 milljarða evra fyrir þann hluta fyrirtækisins. Arðgreiðslan mun nema 26 evrusentum á hlut eða sem svarar til eins milljarðs evra.