Ágúst Torfi Hauksson hefur verið ráðinn nýr forstjóri Norðurorku hf. Hann tekur við starfinu af Franz Árnasyni í september næstkomandi.

Frá árinu 2005 hefur Ágúst verið framkvæmdastjóri hjá Brim hf. Þar hefur hann meðal annars stjórnað umsvifum félagsins við Eyjafjörð þar sem um 150 manns vinna að meðaltali, að því er kemur fram í tilkynningu um forstjóraskiptin. Ágúst er 37 ára gamall vélaverkfræðingur. Hann lauk mastersnámi við University of British Columbia í Kanada árið 2001 og hefur meðal annars stundað rannsóknir í varmafræðum við skólann.