Mark Thompson, nýráðinn forstjóri bandaríska dagblaðsins New York Times (NYT), á möguleika á því að hagnast um allt að fimm milljónir Bandaríkjadala í starfi sínu strax á næsta ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá útgáfufélagi blaðsins til bandaríska fjármálaeftirlitsins.

Thompson var sem kunnugt er framkvæmdastjóri breska ríkissjónvarpsins, BBC, áður en honum var boðin staða forstjóra NYT. Thompson mun fá um eina milljón dala í árslaun á næsta ári, aðra milljón dali í bónusa auk þess sem hann getur hagnast um þrjá milljónir dala vegna kaupréttarsamninga og söluréttar á hlutabréfum.

Fram kemur á fréttavef Reuters að þetta er sambærilegur samningur og forveri hans í starfi, Janet Robinson, hafði hjá félaginu. Fyrir utan fyrrnefndar upphæðir mun Thompson fá um 60 þúsund dali í flutningskostnað, en hann flytur frá Oxford í Englandi til New York, og um 25 þúsund dali í lögfræðikostnað vegna atvinnuréttinda í Bandaríkjunum.

Thompson hefur störf fyrir blaðið í nóvember.