Agnar Már Jónsson hefur verið ráðinn forstjóri Opinna kerfa ehf. og mun hann hefja störf 16. nóvember. Agnar Már kemur þar í stað Gylfa Árnasonar sem í október tók við starfi forstjóra Opin Kerfi Group hf. Agnar verður gestur í Viðskiptaþættinum sem hefst klukkan 16 á Útvarpi Sögu FM 99,4.

Á meðan fylkingar demókrata og repúblikana kljást um stól bandaríkjaforseta ætlar Viðskiptaþátturinn að velta fyrir sér áhrifum forsetakosninganna á efnahag Bandaríkjanna og jafnvel heimsins alls. Prófessor Ágúst Einarsson skýrir málið.

Í þættinum í dag verður ennfremur rýnt í íslenska hlutabréfamarkaðinn sem er farinn að hækka á ný eftir viðvarandi lækkanalotu. Þá heyrum við af áformum Iceland Excursions Allrahanda sem opna í dag sína eigin umferðarmiðstöð eftir að hafa verið úthýst af BSÍ.