Stjórn Kerfi AB í Svíþjóð, dótturfélags Opin Kerfi hf. gekk í dag frá ráðningu Anders Fredholm í starf forstjóra frá og með febrúar 2006 eins og kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. Anders Fredholm tekur við af Anders Grönlund sem hefur starfað hjá Kerfi AB síðan 1994, sem forstjóri síðan 1999.

Anders Fredholm er iðnaðarverkfræðingur frá tækniháskólanum í Linköping. Hann hefur starfað hjá Capgemini síðan 1989 og gegnt þar ýmsum ábyrgðarstörfum. Nú síðast hefur hann borið ábyrgð á uppbyggingu og þróun viðskipta Capgemini á Norðurlöndunum ásamt því skipa sæti í alþjóðlegri framkvæmdastjórn Capgemini.

Kerfi AB er hluti af íslensku Opin Kerfi Group hf. samstæðunni. Félagið var stofnað árið 1984 og er með starfsemi í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og á Íslandi. Hjá samstæðunni starfa ríflega 400 starfsmenn. Viðskiptavinir eru bæði aðilar úr einka- og opinbera geiranum um allt land. Opin Kerfi Group hf. eru dótturfyrirtæki Kögunar hf., stærstu upplýsingatæknisamstæðu á Íslandi. Kögun hf. er skráð í Kauphöll Íslands og hægt er að nálgast nánari upplýsingar á www.kogun.is.

Verkefni Kerfi AB spanna allt frá uppsetningu borðtölva til innleiðingar flókinna tölvukerfa. Kerfi AB er þekktast fyrir uppbyggingu grunnkerfa og heildaruppsetningu á netþjónum, útstöðvum, netbúnaði, samskiptalausnum, öryggislausnum og stýrikerfum. Kerfi AB selur, setur upp og innleiðir alla þætti tengda upplýsingatækni. Einnig er rík áhersla lögð á ráðgjöf og hönnun kerfa.