Sænska lággjaldaflugfélagið FlyMe Europe AB tilkynnti á föstudag að stjórnin muni tilnefna Finn Thaulow sem næsta forstjóra félagsins á sérstökum fundi sem haldinn verður 31. ágúst, segir í frétt Dow Jones.

Thaulow hefur þrjátíu ára reynslu í flugsamgöngugeiranum og mun skipun hans í formannsstöðu vera í takt við stefnu fyrirtækisins um að stækka fyrirtækið á alþjóðavísu, þá sérstaklega í Norður-Evrópu, segir í fréttinni. Thaulow hefur meðal annars verið í stjórnunarstöðu hjá SAS flugfélaginu. Núverandi formaður FlyMe, Björn Olegaard hefur tilkynnt að hann muni fara frá fyrirtækinu á árinu, segir í fréttinni.

Fyrirtækið hefur bætt við tólf áfangastöðum á flugleiðir sínar á síðasta ári og stendur nú yfir áreiðanleikakönnun sem FlyMe lét gera á Lithuanian Airlines.

Stærsti hluthafi FlyMe er íslenska fjárfestingafélagið Fons, en Glitnir hefur gert tólf mánaða samkomulag við Fons um fjármögnun á framtíðarkaupum, segir í fréttinni.

Viðskiptablaðið hefur áður greint frá því að mögulegt sé að unnið sé verið að sameiningu FlyMe, Sterling og FlyNordic.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun FL Group, sem keypti Sterling í fyrra af eignarhaldsfélaginu Fons fyrir 15 milljarða króna, verða stærsti hluthafinn í sameinuðu félagi og losa nálægt 10 milljörðum króna ef viðskiptin ganga eftir.

Olegaard, stjórnarformaður FlyMe, sagði í júlí að mörg lággjaldafyrirtæki ættu í samrunaviðræðum og sagði sameiningu Sterling, FlyMe og FlyNordic vera einn möguleika í stöðunni. Hann vildi þó ekki staðfesta hvort viðræður félaganna þriggja væru langt komnar, en Olegaard sagði í júní að FlyMe hefði 4-6 lággjaldaflugfélög í sigtinu.