Umfangsmiklar breytingar hafa verið gerðar á rekstri Samskipa. Forstjórinn Ásbjörn Gíslason mun taka við stöðu forstjóra Samskip Logistics með aðsetur í Hollandi og svara til stjórnar Samskip Holding BV. Hann verður ábyrgur fyrir flutningsmiðlun, stórflutningum, FrigoCare og Silver Sea í Noregi. Á sama tíma verður Jens Holger Nielsen forstjóri Samskipa með aðsetur í Hollandi. Hann mun svara til stjórnar Samskip Holding BV og verða flutningakerfið undir hans ábyrgð. Þetta þýðir að Samskip eru forstjóralaus um þessra mundir. Hann hefur verið tilnefndur og verður nafn hans gert opinbert í næstu viku.

Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskip Holding BV og aðaleigandi félagsins, gerði á starfsmannafundi í dag grein fyrir breytingunum. Í tilkynningu segir að markmiðið sé að einfalda og straumlínulaga rekstur samstæðu Samskipa. Flutningakerfi Samskipa verða sameinuð undir tvö meginfélög sem mun auka hagkvæmni um leið og félagið hugar að nýjum landvinningum á mörkuðum í Evrópu og víðar. Skipulagsbreytingarnar felast í því að samstæðan mun nú verða tvær megin stoðir. Flutningakerfi Samskipa hf og Samskip Multimodal verða samþættuð undir merkjum Samskipa. Öll flutningsmiðlun félagsins verður sameinuð undir merkjum Samskip Logistics. Þar undir fellur starfsemi félagsins sem bæði er rekin undir merkjum Samskipa, Samskip Icepak og FrigoCare sem og eignarhlutur félagsins í frystiskipaflutningafélaginu Silver Sea.