„Þetta leggst mjög vel í mig. Ég sé Vodafone sem sterkt fyrirtæki með gott starfsfólk á spennandi markaði. Maður hlakkar til að henda sér í það að taka þátt í uppbyggingunni,“ segir Stefán Sigurðsson nýráðinn forstjóri Vodafone í samtali við VB.is. Stefán kemur frá eignastýringu Íslandsbanka þar sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri.

Stefán segist telja fjölmörg tækifæri framundan í fjarskiptageiranum en á næstunni hyggst hann hitta starfsmenn Vodafone og skoða félagið ofan í kjölinn. „Þetta er fjölbreytt félag og með ólíka tekjustrauma sem skapa ákveðið jafnvægi. Það verður áfram að leita tækifæra til að bæta reksturinn eins og menn hafa verið að gera. Við munum leggja áfram áherslu á það. Síðan held ég að það séu fjölmörg tækifæri sem felast í þeim breytingum sem eru að verða í geiranum. Maður mun reyna að grípa þau.“

Spurður um hvort tækifæri séu til hagræðingar innan félagsins segir Stefán að í öllum rekstri þurfi stöðugt að leita hagræðingar. Félagið hafi að undanförnu gert góða hluti í þeim efnum og áfram verði unnið á þeirri braut. Hann segir að hann taki við góðu búi en hann tekur við forstjórastólnum af Ómari Svavarssyni. Aðspurður um ástæður forstjóraskiptanna segir hann aðra verða að svara fyrir það. "Þetta var samkomulag á milli stjórnar og forstjóra," segir Stefán.

Vodafone skilaði uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung á dögunum og er félagið á réttri leið að mati Stefáns. „Svo er það okkar sem störfum að félaginu að gera betur. Það hlýtur að vera markmiðið á hverjum tíma.“