Herbert Svavar Arnarson hefur verið ráðinn forstöðumaður Lykils, einstaklingsviðskipta Lýsingar hf., en félagið keypti Lykil af MP banka fyrr á árinu.

Herbert veitti áður eignaleigusviði Lykils forstöðu þegar hann var í eigu MP banka. Þar á undan var Herbert forstöðumaður innheimtu- og útlánasviðs SP-Fjármögnunar eftir að hafa verið ráðgjafi, sölustjóri og forstöðumaður atvinnutækjafjármögnunar hjá félaginu.

Áður starfaði hann meðal annars sem markaðsfulltrúi hjá Miðlun ehf. auk þess sem hann var atvinnumaður í körfuknattleik í Hollandi og Belgíu um skeið. Herbert er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BA gráðu í íþróttafræðum frá Kentucky Wesleyan College.