Hrund Gunnsteinsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdarstjóri Festu – miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð. Hún hefur störf í febrúar.

Hrund er þróunarfræðingur MSc. frá London School of Economics, með diplóma frá Harvard Kennedy School í leiðtogafræðum og opinberri stjórnsýslu og hefur einnig stundað leiðtoga- og stjórnendanám við Yale háskóla, Stanford og Oxford Saïd Business School. Hún hefur víðtæka 20 ára ráðgjafa- og stjórnunarreynslu, bæði á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi, hefur setið í fjölmörgum stjórnum og sérfræðingahópum og er stjórnarformaður Tækniþróunarsjóðs. Hrund hefur starfað sem stjórnandi, ráðgjafi og opinber starfsmaður Sameinuðu þjóðanna og situr í sérfræðingaráði Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) á sviðum tengdum fjórðu iðnbyltingunni og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Hrund hefur jafnframt starfað sem fyrirlesari víða um heim og verið ráðgefandi fyrir leiðtoga og frumkvöðla á sviði nýsköpunar og þróunarstarfs.

Hrund er handritshöfundur og annar tveggja leikstjóra heimildarmyndarinnar InnSæi – the Power of Intuition, sem sýnd er um allan heim á Netflix og fjallar um áhrif ört breytilegs heims á einstaklinga, menntun og vinnumarkað. Hrund hannaði og stýrði Prisma diplómanáminu 2008-2010 í samvinnu við Listaháskóla Íslands, Háskólann á Bifröst og ReykjavíkurAkademíuna, sem hlaut viðurkenningu Norðurlandaráðs fyrir að svara hvað best kröfum vinnumarkaðarins á 21. öldinni. Hún hefur kennt leiðtoganámskeið og námskeið um gagnrýna og skapandi hugsun í alþjóðlegu samhengi í háskólum hérlendis og erlendis. Sem blaðamaður og greinahöfundur frá árinu 1999, hefur Hrund lagt áherslu á samfélagslega ábyrgð, nýsköpun og alþjóðlega þróun. Hrund er ein af ungum leiðtogum Alþjóðaefnahagsráðsins, var valin Menningarleiðtogi hjá Alþjóðaefnahagsráðinu árið 2017 og Yale Greenberg World Fellow árið 2016.

„Ég er full tilhlökkunar að vinna með framsæknustu leiðtogum, fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi sem eru aðilar að Festu“, segir Hrund. „Samtíminn kallar á aukið samstarf þvert á geira og skýran fókus á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð allra aðila. Spurningin er ekki lengur hvort, heldur hvernig við eflum okkur í þessa veru. Þessar áherslur fela í sér gríðarlega spennandi tækifæri á sviði nýsköpunar, frumkvöðlastarfs og áframhaldandi vegferðar fyrirtækja og stofnana á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi. Ég er þakklát fyrir það tækifæri að fá að taka við keflinu af forverum mínum hjá Festu, sem hafa unnið frábært starf.“