Hrafnhildur Hafsteinsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri FKA. Hrafnhildur mun taka við starfinu af Huldu Bjarnadóttur sem mun hefja störf sem framkvæmdastjóri millilandaráða Viðskiptaráðs Íslands.

Hrafnhildur hefur 15 ára reynslu af stjórnunar-, markaðs- og kynningarmálum. Hún hefur starfað sem verkefnastjóri MBA-náms í Háskólanum Reykjavík frá árinu 2007. Fyrir það var hún kynningarstjóri Námsgagnastofnunar.

Hrafnhildur er með PLD gráðu frá IESE Business School í Barcelona, B.A. gráðu í almannatengslum frá Auckland University of Technology í Nýja Sjálandi og IAA gráðu í markaðs- og auglýsingafræðum frá IACT í Kuala Lumpur. Hrafnhildur er einnig útskrifaður stjórnendamarkþjálfi frá Háskólanum í Reykjavík og er ein af þremur stofnendum styrktarfélagsins Gleym mér ei og situr í stjórn þess.