Matthew Woolsey tekur við nýrri stöðu hjá 66°Norður sem framkvæmdastjóri alþjóðlegrar starfsemi og er ráðning hans liður í eflingu fyrirtækisins á alþjóðlegum mörkuðum á komandi árum. Í fyrra fjárfesti Mousse Partners í minnihluta í fyrirtækinu með það að markmiði að styrkja stoðir fyrirtækisins fyrir frekari vöxt. Ráðning Matthew er mikilvægur þáttur í þeirri vegferð en hann býr yfir mikilli reynslu þegar kemur að vefviðskiptum, stafrænni markaðssetningu og alþjóðlegum rekstri. Hann gegndi nú síðast starfi framkvæmdastjóra vefverslunarinnar Net-a-Porter sem er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum þegar kemur að hágæða vörumerkjum í fatnaði. Hjá Net-a-Porter var Matthew ábyrgur fyrir öllum daglegum rekstri fyrirtæksins sem er með starfsstöðvar víðsvegar um heiminn. Þar á undan gegndi Matthew starfi framkvæmdastjóra stafrænna viðskipta hjá Barneys New York. Matthew mun hafa aðsetur í London og setja upp skrifstofu 66°Norður þar en höfuðstöðvar fyrirtækisins munu áfram verða staðsettar á Íslandi líkt og þær eru nú.

,,Ráðning okkar á Matthew Woolsey í stöðu framkvæmdastjóra alþjóðlegrar starfsemi er eðlilegt næsta skref fyrir félagið eftir að við fengum fjárfestana, Mousse Partners Limited til liðs við okkur í fyrra. Kauphegðun fólks er að breytast mikið og er vefurinn að fá meira og meira vægi þegar fólk hugar að fatakaupum. Sú reynsla sem Matthew kemur með að borðinu nýtist félaginu gríðarlega vel í þeirri uppbyggingu sem framundan er,“ segir Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður.
„66°Norður er í raun ótrúlegt fyrirtæki þegar litið er á gæði varanna, framleiðslusögu þess og arfleifð. Fyrirtækið var stofnað árið 1926 í kringum framleiðslu á sjófatnaði og þó það geri það enn í dag hefur fyrirtækið þróast með íslensku þjóðinni og er í dag fatnaður fyrir öll veðurskilyrði og tilefni. Ég er mjög spenntur að fá tækifæri til að koma til liðs við fyrirtækið á þessum spennandi tímamótum og taka þátt í frekari þróun vörumerkisins á alþjóðamarkaði,“ segir Matthew Woolsey, framkvæmdastjóri alþjóðlegrar starfsemi hjá 66°Norður.

66°Norður hefur verið að leggja aukna áherslu á erlenda markaði undanfarið en fyrirtækið rekur tvær verslanir í Kaupmannahöfn og hefur jafnframt verið í samstarfi við erlend vörumerki, nú síðast Ganni sem í dag er eitt fremsta fatamerki Dana.

Skrifstofa félagsins í London, sem Matthew mun leiða, mun einbeita sér að því að auka tekjur félagsins á erlendum vettvangi. Engin breyting er á starsemi 66°Norður að öðru leyti og munu höfuðstöðvar félagsins verða áfram á Íslandi.