Gunnlaugur Hjörtur Gunnlaugsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Heilbrigðissviðs Icepharma frá 1. október næstkomandi. Hjörtur hefur undanfarin sex ár starfað hjá Icepharma, fyrst sem sérfræðingur í lækningatækjum, frá 2013 sem deildarstjóri tækja- og þjónustudeildar og frá 2015 sem deildarstjóri skurðvörudeildar.

Heilbrigðissvið Icepharma starfar með fjölda birgja um heim allan og starfar á sviði ráðgjafar, sölu og þjónustu á tækjum og rekstrarvöru á íslenskum heilbrigðismarkaði. Helstu viðskiptavinir sviðsins eru sjúkrahús, heilsugæslur, læknastofur og hjúkrunarheimili um allt land.

Hjörtur er 41 árs gamall og með B.Sc. próf í rafmagnstæknifræði og M.Sc. próf í heilbrigðisverkfræði frá Háskólanum í Árósum. Eiginkona Hjartar er Karen Kristjánsdóttir markaðssérfræðingur og eiga þau þrjá drengi.