Þórhildur Ólöf Helgadóttir hefur við ráðin til Íslandspósts og mun taka við starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs fyrirtækisins nú í lok sumars. Þórhildur hefur mjög mikla reynslu á sviði fjármála og rekstrar en síðastliðin tvö ár hefur hún starfað sem fjármálastjóri 66° Norður.

Áður en hún tók við því starfi var hún fjármálastjóri bílaumboðsins Heklu frá 2014 til 2017 og þar á undan var hún fjármálastjóri Securitas en áður hafði hún starfað sem verkefnastjóri hjá Deloitte. Þá sat hún í stjórn Sjóvá Almennra um árabil sem og átti sæti í stjórnum dótturfélaga 66° Norður og Heklu. Þórhildur er með Cand Oecon próf frá Háskóla Íslands. Hún er gift Stefáni Árna Auðólfssyni og á þrjú börn.

„Það er sönn ánægja að ganga til liðs við Íslandspóst á þessum miklu umbreytingartímum sem fyrirtækið er að ganga í gegnum. Ég veit að þetta verður mjög krefjandi starf sem verður fullt af áskorunum en á sama tíma er þetta ótrúlega spennandi tækifæri og hlakka ég mikið til að byrja. Mikið hefur verið rætt um Íslandspóst á síðustu árum í fjölmiðlum og það er einstakt tækifæri að fá að taka þátt í að snúa rekstri fyrirtækisins við.“ segir Þórhildur.

„Við erum mjög ánægð með að fá Þórhildi til liðs við okkur, hún er mikill leiðtogi og afar reynd á sviði fjármála og rekstrar en það mun reynast okkur gríðarlega vel í þeim fjölmörgu verkefnum sem liggja fyrir. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um rekstur Íslandspósts er bent á að áætlunargerð gæti verið markvissari hjá fyrirtækinu og var það m.a. það sem við vorum að leita eftir hjá nýjum fjármálastjóra en Þórhildur er gríðarlega öflug á því sviði og mun koma með nýjungar sem munu nýtast okkur mjög vel við að ná utan um reksturinn. Það er því mjög spennandi að fá hana til liðs við okkur og er ég fullviss um að ráðningu hennar fylgi miklar og jákvæðar breytingar. Þau skref sem við höfum tekið með breytingum á stjórnendahópi félagsins nú í sumar hafa miðast að því að skapa öfluga liðsheild til að takast á við þessa stóru áskorun sem við stöndum frammi fyrir í að umbylta rekstri Íslandspósts. Í svona vegferð skiptir slagkraftur og samheldni liðsins öllu máli en við erum að einfalda skipulag og fækka framkvæmdastjórum og millistjórnendum til þess að færa ábyrgð og ákvarðanatöku nær sjálfri starfseminni. Á sama tíma hef ég, í nánu samstarfi við stjórn félagsins, lagt áherslu á hagræðingu og mikilvægi þess að aðlaga kostnaðargrunninn að þeim breytingum sem hafa orðið á umhverfi fyrirtækisins. Næstu skref í því verkefni verða stigin í síðar þessum mánuði en þá munum við kynna enn frekari breytingar sem snúa að hagræðingu og breyttu skipulagi. Ég vil einnig nota tækifærið og þakka fráfarandi framkvæmdastjóra fjármálasviðs, Helgu Sigríði Böðvarsdóttur, fyrir gott starf hjá fyrirtækinu og óska henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts.