Elfa Svanhildur Hermannsdóttir hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri InfoMentor á Íslandi. Hún tekur við starfinu af Vilborgu Einarsdóttur, stofnanda Mentor, sem lætur af störfum eftir farsæla uppbyggingu félagsins í næstum 20 ár.

Elfa hefur verið forstöðumaður fræðslumiðstöðvar Vestfjarða frá árinu 2017 en starfaði þar áður um árabil sem þjónustustjóri og kennsluráðgjafi hjá Þjónustu-og þekkingarmiðstöð blindra og sjónskertra. Elfa er með mastersgráðu í verkefnastjórnun, framhaldsgráðu í stjórnun menntastofnana og sérkennslufræðum. Í grunninn er hún grunnskólakennari.

Vilborg Einarsdóttir, meðstofnandi Mentor, lætur af störfum hjá félaginu við þessi tímamót. Vilborg hefur leitt uppbyggingu Mentor frá stofnun félagsins árið 2000, nú síðast sem framkvæmdastjóri InfoMentor á Íslandi og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar. Á starfstíma Vilborgar hefur Mentor vaxið ár frá ári og er náms- og upplýsingakerfi Mentor nú notað af skólum og sveitarfélögum af milljónum notenda í fimm löndum.

Vilborg segir: „Stolt og þakklæti er mér efst í huga við þessi tímamót. Ég er gríðarlega stolt af Mentor og því góða fólki sem ég hef unnið með í gegnum tíðina. Ég er þakklát fyrir þau forréttindi að hafa fengið að taka þátt í að auka árangur í skólastarfi. Nú taka við ný og spennandi verkefni og ég óska nýjum framkvæmdastjóra á Íslandi alls hins besta.“

Elfa segir: „Þetta er ákaflega spennandi verkefni sem ég er að fara að takast á við. Mentor er leiðandi fyrirtæki í þróun lausna fyrir íslenska skólasamfélagið. Það er áskorun að fá að taka þátt í að gera góða þjónustu enn betri og halda áfram því góða starfi sem þar er.“

Stjórn Mentor þakkar Vilborgu vel unnin störf og óskar henni góðs gengis í nýjum verkefnum.