Elísabet Sveinsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs, en hún mun hefja störf um áramótin.

Elísabet er með MBA-próf frá Háskóla Íslands og próf í hagnýtri fjölmiðlun frá sama skóla. Hún stundaði einnig nám við Rockford University í Bandaríkjunum að stúdentsprófi loknu.

Elísabet hefur gengt stöðu forstöðumanns markaðssviðs Advania síðan í byrjun árs 2012. Hún hefur m.a. verið formaður ÍMARK - félags markaðsfólks, til nokkurra ára og er nú formaður í Félagi háskólakvenna og kvenstúdenta. Hún hefur stýrt markaðsmálum hjá Íslandsbanka og Glitni, unnið að stofnun nýs sviðs innan Icelandair, stýrt tónlistarhúsinu Salnum í Kópavogi auk þess sem hún starfaði um tíma sem fréttamaður á fréttastofu RÚV.

Í tilkynningu um ráðninguna segir að Markaðsstofa Kópavogs sé sjálfseignarstofnun og hafi það hlutverk að efla ímynd og atvinnuþróun í Kópavogi, starfa að ferða- og markaðsmálum og stuðla þannig að því að bæta lífsgæði og glæða mannlíf og atvinnulíf í bænum. Markaðsstofan er brú á milli atvinnulífs og stjórnsýslu bæjarins og tengir saman ólíka hagsmunahópa í bænum.