Linda Fanney Valgeirsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækisins Alor ehf. Félagið er hátæknifyrirtæki sem var stofnað á árinu 2020 og vinnur að því að þróa og síðar framleiða umhverfisvænar álrafhlöður sem munu nýtast í það brýna verkefni að hraða orkuskiptum m.a. í samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og annarri framleiðslu.

Linda Fanney er lögfræðingur og starfaði síðast sem staðgengill skrifstofustjóra á skrifstofu matvælaöryggis- og fiskeldis í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Auk þess að starfa í Stjórnarráðinu er Linda Fanney með lögmannsréttindi og stundaði lögmennsku um árabil, starfaði á lögfræðisviði Arion banka og á hjálpar- og mannúðarsviði Rauða krossins á Íslandi.

„Rafhlöðuframleiðsla hefur oft verið nefnd sem lykilþáttur í að hraða orkuskiptunum og það er augljóst að markaður fyrir umhverfisvænar álrafhlöður Alor er mjög stór. Ég er full eftirvæntingar að leiða félagið og stolt af því að taka þátt í rekstri fyrirtækis sem getur lagt mikið af mörkum í baráttunni gegn loftlagsvandanum“, segir Linda Fanney.

Rakel Eva Sævarsdóttir
Rakel Eva Sævarsdóttir
Þá mun Rakel Eva Sævarsdóttir taka sæti í stjórn félagsins. Rakel Eva er nýlega tekin við stöðu forstöðumanns sjálfbærni, og samfélagsábyrgðar hjá PLAY en þar áður gegndi hún stöðu sérfræðings hjá Marel á sviði sjálfbærni innan fiskiðnaðar. Hún mun koma inn í stjórnina með verðmæta þekkingu og reynslu m.a. á sviði sjálfbærni og nýsköpunar.

„Þróun og framleiðsla á umhverfisvænum álrafhlöðum er ekki aðeins einstaklega spennandi verkefni heldur þarft enda mun það stuðla að hraðari orkuskiptum í landi, sjó og öðrum iðnaði. Framleiðsla á nýrri kynslóð rafhlaðna frá Alor mun skapa fjölda nýrra starfa á Íslandi og byggja upp þekkingu sem ekki er til staðar hér á landi í dag. Möguleikar félagsins að hafa jákvæð áhrif gætir ekki aðeins á Íslandi heldur um allan heim. Það er mér mikil ánægja, sem stjórnarkona Alor, að fá að taka þátt í þessari mikilvægu vegferð að hraða og auðvelda nauðsynleg orkuskipti“, segir Rakel Eva.

Alor ehf. er í samstarfi við Háskóla Íslands og spænska fyrirtækið Albufera Energy Storage sem er leiðandi í þróun á álrafhlöðum í Evrópu og hefur unnið að þróun tækninnar síðustu 8 ár. Áætlað er að frumgerðir rafhlaðna verði tilbúnar í apríl á næsta ári og að framleiðsla hefjist á árinu 2023.

„Það er mikið heillaskref að fá tvær öflugar konur til liðs við félagið sem báðar hafa fjölbreytta þekkingu og reynslu. Á síðustu misserum hafa fulltrúar Alor rætt við innlend og erlend fyrirtæki sem hafa lýst sig reiðubúin til að taka þátt í þróun á síðasta fasa rafhlaðnanna og hefja viðskipti við Alor þegar framleiðslan hefst. Það er því mikilvægt að tefla fram öflugu teymi sem getur stuðlað að hröðum vexti fyrirtækisins og  gert því kleift standa undir væntingum sem gerðar er til hinnar nýju tækni“ segir Valgeir Þorvaldsson, formaður stjórnar.