Hildigunnur Thorsteinsson, jarðhitaverkfræðingur við bandaríska orkumálaráðuneytið, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Þróunarsviðs Orkuveitu Reykjavíkur. Breytingar verða á verkaskiptingu nokkurra stjórnenda Orkuveitunnar nú um mánaðamótin.

Fram kemur í tilkynningu frá Orkuveitunni að Hildigunnur lauk prófi í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og meistaraprófi frá MIT 2008 á sviði jarðvarma. Hún hefur unnið að jarðhitamálum allt frá 2005 og árið 2009 hóf hún störf hjá Department of Energy í Washington. Síðustu misseri hefur hún verið teymisstjóri og haft umsjón með tugum rannsóknarverkefna sem ýtt var úr vör með átaki Bandaríkjastjórnar á sviði grænnar orku. Hildigunnur kemur til starfa á Þróunarsviði OR í desember. Ásdís Kristinsdóttir, verkfræðingur, mun gegna starfinu þangað til. Undir sviðið heyra auðlindarannsóknir, verkefnastofa Orkuveitunnar og rannsóknir veitukerfa og hönnun.

Inga Dóra Hrólfsdóttir tekur við starfi framkvæmdastjóra Veitusviðs OR um mánaðamótin. Inga Dóra, sem er með meistarapróf í verkfræði,  á langan starfsaldur að baki hjá OR, síðast sem framkvæmdastjóri Þróunar.  Virkjana- og sölusvið OR, sem mun færast lögum samkvæmt í sérstakt fyrirtæki, verður undir forystu Páls Erland frá 1. nóvember. Páll er iðnrekstrar- og viðskiptafræðingur með MBA próf og hefur starfað hjá OR frá 2001.