Stjórn Applicon ehf. hefur ákveðið að ráða Ingimar G. Bjarnason til starfa sem framkvæmdastjóra félagsins og mun hann taka við því starfi nú í vikunni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýherja til Kauphallarinnar, en Nýherji er móðurfélag Applicon.   Þar kemur fram að Ingimar hóf störf á hugbúnaðarsviði Nýherja í febrúarmánuði 1998 og starfaði þar og síðan hjá Applicon fram til ágústmánaðar 2006.

Þá tók Ingimar við sem framkvæmdastjóri Applicon Solutions Ltd. í Bretlandi og hefur gegnt því starfi þar til nú.

Ingimar lauk prófi í véla- og iðnverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og síðan MBA prófi frá IESE Viðskiptaháskólanum í Barcelóna 2003.

Þá kemur fram að Kristján Jóhannsson sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra Applicon frá stofnun félagsins og þar áður framkvæmdastjóri hugbúnaðarsviðs Nýherja, lætur nú af störfum.

„Stjórn Applicon ehf. vill færa Kristjáni þakkir fyrir mikil og góð störf við uppbyggingu á félaginu og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni,“ segir í tilkynningunni.