Kim Lave Nielsen hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Dansupport A/S, sem er dótturfélag Nýherja í Danmörku. Hann hefur yfir 20 ára reynslu í upplýsingatækniiðnaði og gegndi síðast starfi framkvæmdastjóra hjá upplýsingatæknifyrirtækinu CA Danmark. Þar áður var hann svæðisstjóri yfir Danmörku og Noregi hjá tæknifyrirtækinu Baan Nordic A/S.

Þá hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri upplýsingatækni hjá Scandinavian Tobacco og SAS. Hann hefur ennfremur setið í stjórnum CA Danmark og Baan Nordic A/S. Kim Lave Nielsen lauk viðskiptafræði frá Copenhagen Business School. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýherja.   „Við höfum nú þegar ráðist í umtalsverða uppbyggingu á rekstri Dansupport með opnun nýrra skrifstofa í Kaupmannahöfn og Kolding á Jótlandi. Þær fjárfestingar eru liður í því að styrkja starfsemi Dansupport, auka markaðshlutdeild og bjóða þjónustu og lausnir til breiðs hóps fyrirtækja. Dansupport er ætlað að vera kjölfesta í kjarnastarfsemi Nýherja í þjónustu og sölu á tölvubúnaði og símkerfum til smárra og meðalstórra fyrirtækja á dönskum markaði,” segir Þórður Sverrisson forstjóri Nýherja.

Þórður segir einnig að Kim Lave Nielsen búi yfir mikilli reynslu og þekkingu á dönskum upplýsingatæknimarkaði. Honum sé ætlað að efla rekstur Dansupport enn frekar, styrkja tengsl við núverandi samstarfsaðila og byggja upp ný sambönd við mikilvæga birgja.

Nielsen hefur störf þann 1. maí næstkomandi. Hann tekur við af Þorvaldi Jacobsen, framkvæmdastjóra Kjarnalausna Nýherja, sem gegndi starfi framkvæmdastjóra Dansupport tímabundið.