Benedikt Hauksson verkfræðingur tók við starfi Kristjáns M. Ólafssonar sem framkvæmdastjóri EAN á Íslandi 1. október sl. Benedikt er rafmagnsverkfræðingur frá AUC í Danmörku og rak um 12 ára skeið verkfræðistofu í eigin nafni á sviði sjálfvirkra skráninga og strikamerkjatækni. Síðast starfaði Benedikt hjá Króla verkfræðistofu og við þróun og útflutning á hugbúnaði fyrir strikamerkjaprentara. Kristján M Ólafsson sem gegnt hefur starfinu síðastliðin 6 ár hefur tekið við starfi deildarstjóra hjá Samskipum.

Markmið EAN er að vinna að útbreiðslu á notkun EAN kerfanna til auðkenningar á vörum og þjónustu. Hluti af því er að vinna að strikamerkingum, örmerkingum og rafrænum viðskiptum. EAN á Íslandi, ásamt samsvarandi félagasamtökum og nefndum í yfir 100 löndum, er aðili að EAN-International. Um 1.000.000 aðilar í öllum heiminum eru félagsmenn EAN samtakanna.

EAN á Íslandi eru félagasamtök sem eru rekin af eftirtöldum aðilum: SVÞ - Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi íslenskra stórkaupmanna (FÍS), Samtökum iðnaðarins (SI), Sambandi íslenskra samvinnufélaga (SÍS) og Verslunarráði Íslands (VÍ). Félagið er til húsa í Borgartúni 35 í Reykjavík.