Actavis Group hf. hefur ráðið Mark Keatley sem framkvæmdastjóra fjármálasviðs Actavis Group hf. frá 1. september 2005, og mun hann taka sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Mark var áður framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Farmar SA, í London, leiðandi framleiðanda á lyfjum til þriðja aðila í Evrópu, þar sem hann hefur starfað frá árinu 2002. Áður en hann hóf störf hjá Farmar, var hann framkvæmdastjóri fjármálasviðs Ardana Bioscience Limited í Edinborg frá 2001-2002 og Ashanti Goldfields Company Limited í Accra, Ghana frá 1994-2000.

Mark hefur víðtæka reynslu af störfum í fjárfestingarbankageiranum, í gegnum störf sín hjá International Finance Corporation í Washington, þar sem hann stýrði fjármögnun fyrir mörg fyrirtæki á vaxandi (e.Emerging) mörkuðum. Hann hóf starfsferil sinn sem greiningaraðili hjá Ford bílaframleiðandanum í Evrópu.

Mark hefur yfir 10 ára reynslu af setu í framkvæmdastjórn fyrirtækja, sem framkvæmdastjóri fjármála hjá alþjóðlegum fyrirtækjum. Hann átti verulegan þátt í vexti þessara fyrirtækja í gegnum yfirtökur, viðskiptaþróun og uppbyggingu fjármálakerfa. Mark hefur tekið þátt í tveimur skráningum fyrirtækja á verðbréfamarkað, annarsvegar í kauphöllina í London og hins vegar í New York.

Mark hefur MBA gráðu frá Stanford Business School, í Bandaríkjunum, og útskrifaðist með M.Phil. gráðu í Alþjóða Samskiptum og MA gráðu í Sögu frá Cambridge University, í Bretlandi. Hann er löggiltur endurskoðandi í Bretlandi, þar sem hann er meðlimur í félagi endurskoðanda þar í landi.