Í kjölfar kaupa Hanza-hópsins ehf. á hluta í fasteignasölunni Húsakaupum ehf. hefur Jón Gretar Jónsson rekstrarfræðingur tekið við sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir í tilkynningu.

Guðrún Árnadóttir aðaleigandi og löggiltur fasteignasali, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Húsakaupa farsællega í 17 ár, starfar áfram hjá fyrirtækinu og sinnir sérverkefnum.

Fasteignasalan Húsakaup var stofnuð í október árið 1984 af Ragnari Tómassyni hdl. Starfsmenn eru níu talsins, allir með víðtæka menntun og reynslu á sviði fasteignaviðskipta og sölumennsku.

Jón Gretar Jónsson framkvæmdastjóri Húsakaupa stendur á fertugu. Hann er rekstrarfræðingur með BS í vörustjórnun frá Tækniskóla Íslands árið 1997 og gat sér einnig gott orð í knattspyrnunni með Val á árum áður. Jón Gretar starfaði sem sölumaður hjá Húsakaupum í þrjú ár áður en hann tók við framkvæmdastjórastarfinu. Maki er Anna Katrín Einarsdóttir og eiga þau þrjú börn.

Hanza-hópurinn hét áður Tjarnarbyggð ehf. Var fyrirtækið upphaflega stofnað í kringum framkvæmdir á Rafha reitnum í Hafnarfirði en með tilkomu nýrra verkefna var starfsemin endurskipulögð og nafni fyrirtækisins breytt í Hanza-hópurinn ehf.