Í fréttatilkynningu kemur fram að Microsoft hefur ráðið nýjan framkvæmdastjóra Microsoft Íslandi í stað Elvars Steins Þorkelssonar, sem fer til starfa hjá Microsoft Rússlandi í ágúst. Elvar hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Microsoft Íslandi frá stofnun þess árið 2003.

Halldór Jörgensson, sem undanfarið hefur gegnt stjórnunarstöðu hjá viðskiptalausnadeild Microsoft í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku, mun taka við af Elvari og fara framkvæmdastjóraskiptin formlega fram í ágúst.

Halldór hóf störf hjá Microsoft í júní 2002 og var fyrst um sinn sölustjóri fyrir lausnir samstarfsaðila Microsoft, en fór fljótlega í stjórnunarstöðu hjá stórfyrirtækja- og samstarfsaðiladeild Microsoft. Núverandi stöðu hjá viðskiptalausnadeild Microsoft hefur hann gegnt síðustu 18 mánuði. Áður en Halldór kom til Microsoft starfaði hann hjá Software AG í sjö ár, en hann hóf feril sinn í hugbúnaðargeiranum hjá Streng á Íslandi. Halldór er með MSC gráðu í tölvunarfræði frá Iowa-háskóla í Bandaríkjunum.

Elvar Steinn Þorkelsson flytur sig um set til Moskvu, þar sem hann mun stýra Information Worker einingu Microsoft Rússlandi, með ábyrgð á allri sölu og markaðssetningu á Office, Visio, Project og öðrum hugbúnaði sem Microsoft framleiðir til að bæta samskipti og framleiðni notenda um allan heim. Elvar hefur verið framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi frá stofnun fyrirtækisins árið 2003 og hefur náð góðum árangri í að auka sölu Microsoft hugbúnaðar hér á landi og gera Microsoft að virkum þátttakanda í íslensku viðskiptalífi. Elvar hefur jafnframt verið ötull talsmaður hugbúnaðarfyrirtækja sem berjast gegn hugbúnaðarstuldi hér á landi.