Stjórn ReykjavíkurAkademíunnar hefur ráðið Viðar Hreinsson bókmenntafræðing framkvæmdastjóra félagsins. Hann tekur við starfinu 1. september næstkomandi, af Ernu Indriðadóttur sem hverfur til annarra starfa.

Viðar Hreinsson er bóndasonur að norðan. Hann nam bókmenntir við Háskóla Íslands og Hafnarháskóla þaðan sem hann lauk mag art prófi árið 1989. Hann hefur haldið fyrirlestra við háskóla og menntastofnanir heima og erlendis, auk þess að rita fjölda fræðigreina. Hann var aðalritstjóri enskrar þýðingar Íslendingasagna sem kom út í fimm bindum hjá Bókaútgáfunni Leifi Eiríkssyni árið 1997 og hlaut einróma lof gagnrýnenda. Viðar ritaði ævisögu Stephans G. Stephanssonar sem kom út í tveim bindum árin 2002 og 2003. Landneminn mikli og Andvökuskáld. Landneminn mikli var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, en fyrir ævisöguna í heild hlaut hann Viðurkenningu Hagþenkis árið 2003. Viðar hefur verið félagi og haft aðsetur í ReykjavíkurAkademíunni frá upphafi og sat í stjórn félagsins 1998 ? 2001.