Philippe Darthenucq hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri SIF France, dótturfélags SÍF hf. í Frakklandi. Philippe Darthenucq, sem er 47 ára, hefur starfað hjá matvælafyrirtækinu Labeyrie Group frá 1990 en starfaði áður við sölu- og markaðsmál hjá alþjóðlega fyrirtækinu Colgate-Palmolive. Hjá Labeyrie hóf Philippe Darthenucq störf sem aðalbókari, varð síðar sölustjóri hjá Labeyrie í Frakklandi og loks yfirmaður sölu- og markaðsmála félagsins.

Ákveðið hefur verið að Xavier Govare verði forstjóri yfir starfsemi SÍF hf. í Frakklandi og undir hann heyri bæði Labeyrie Group og SIF France. Xavier Govare, sem er 46 ára, gegndi stöðu forstjóra Labeyrie Group þegar SÍF keypti félagið á síðasta ári. Hann hefur starfað hjá Labeyrie frá árinu 1989 og hefur víðtæka reynslu úr viðskiptalífinu. Meðal fyrri starfa má nefna stjórn markaðsmála hjá alþjóðlega fyrirtækinu CPC International og framleiðslustjórn hjá efnaframleiðandanum Ciba Geigy.

Roland Wolfrum, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra SIF France, snýr aftur til sinna fyrri starfa sem framkvæmdastjóri fjármála SIF France.

Aðrir framkvæmdastjórar hjá SIF France eru: Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri kælisviðs, Guðmundur Stefánsson, framkvæmdastjóri frystisviðs, og Pascal Roth, framkvæmdastjóri saltfisksviðs.

Fjármálastjóri Labeyrie Group er Philippe Perrineau. Hann mun einnig bera höfuðábyrgð á fjármálum SÍF hf. í Frakklandi. Philippe Perrineau, sem er 48 ára, hefur starfað hjá Labeyrie frá árinu 2000. Hann hóf starfsferil sinn hjá endurskoðunarfélaginu KPMG. Áður en Philippe Perrineau kom til Labeyrie gegndi hann ýmsum störfum hjá alþjóðlega fyrirtækinu Chargill í Frakklandi og víðar.

Ofantaldar breytingar á starfsmannahaldi eru í samræmi við stefnumörkun stjórnenda SÍF hf. frá síðasta ári segir í tilkynningu félagsins.