Eric Figueras hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá TölvuMyndum. Í starfi hans verður sérstök áhersla lögð á að styðja við vöxt TölvuMynda, bæði innanlands og erlendis, en miklar breytingar eru að verða á uppbyggingu og umsvifum félagsins

Eric segist hlakka til að takast á við spennandi verkefni hjá TölvuMyndum enda séu mörg áhugaverð tækifæri framundan. ?Má þar nefna verkefni sem snúa að því að efla einstök félög á kjörsviðum TölvuMynda og fjölgun verkefna erlendis,? segir Eric í tilkynningu frá félaginu.

Eric, sem er fæddur 1967, starfaði hjá Símanum í sex ár, frá 1998 til 2004 og var meðal annars forstöðumaður vöruþróunar verkefnisstjórnar um tíma hjá Símanum. Undanfarin ár hefur hann einnig gegnt starfi stjórnarformanns hjá hugbúnaðarfyrirtækinu TrackWell. Þá var Eric yfirmaður vörustjóra fyrir framleiðslu farsíma á alþjóðamarkaði Philips í Frakklandi í þrjú ár. Eric var vörustjóri fyrir GSM fjarskiptakerfi hjá Siemens í Þýskalandi og Bandaríkjunum í fimm ár. Aukinheldur var hann stjórnarformaður TIA (Telecommunications Industry Association) sem vann að stöðlum fyrir GSM í Norður-Ameríku.

Eric lauk MBA hjá alþjóðlega viðskiptaháskólanum IMD í Sviss árið 2001 og MS gráðu í rafmagnsverkfræði í Háskóla Katalóníu (UPC) í Barcelona árið 1992. Móðurmál hans eru spánska og katalónska. Hann er kvæntur Björk Þórarinsdóttur og eiga þau tvær stúlkur, fimm og tveggja ára.

TölvuMyndir eru alþjóðlegt hugbúnaðar- og þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni. Starfsstöðvar félagsins eru nú í tólf löndum og starfsmenn eru nálægt fjögur hundruð. Félagið hefur náð góðum árangri með eigin þróun og markaðssetningu hugbúnaðarkerfa en viðskiptavinir félagsins eru nú yfir 1.000 í 20 löndum.