Aðilar í einkageiranum munu leggja fyrir skattalöggjöf sem mun undanskilja fyrirtæki á Norður-Írlandi frá því að borga skatta af 60% hagnaði sínum, en með því er ætlunin að styrkja efnahag svæðisins, segir í frétt Financial Times.

Samkvæmt tillögunni munu fyrirtæki greiða skatta af afgangi hagnaðarins samkvæmt hefðbundinni skattprósentu Bretlands, sem er 30%. Það þýðir fyrirtækjaskattur verður í raun 12%, sem er litlu minna en á Írlandi. Á Norður-Írlandi eru innheimtar um 600 milljónir punda í fyrirtækjaskatt á ári og munu því skattatekjur af fyrirtækjum lækka niður í 250 milljónir punda, ef af lækkuninni verður.

Tillagan er birt af Economic Research Institude og er studd af Sir George Quigley, fyrrum forstjóra Ulster Bank. Skattaumhverfið hefur verið í mikilli umræðu þar í landi að undanförnu, en bæði Demókrataflokkurinn (DUP), sem er að mestu mótmælendatrúar og Sinn Féin, sem er kaþólskur, hafa kallað eftir skattalækkunum. Talsmenn DUP segjast ekki ætla í stjórnarsamstarf með Sinn Féin ef að skattalækunin verður ekki samþykkt.

Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, hitti talsmenn flokkanna í síðustu viku og gerði grein fyrir efnahagsmöguleikum sem Norður-Írlandi standi til boða ef sjálfsstjórn væri komið á aftur. Brown vildi þó ekki gefa nein loforð um lækkanir á fyrirtækjasköttum. Ríkisstjórn Bretlands hefur haft ákveðna fyrirvara á að leyfa Norður-Írlandi að taka upp aðra skattprósentu, þar sem kröfur um það sama frá öðrum héröðum myndu væntanlega berast í kjölfarið.

Þar sem fyrirtæki borga nú 30% skatt er talið að lækkunin muni laða að erlenda fjárfesta sem gefi landinu aukið vægi í samkeppni við Írland, en þar er fyrirtækjaskattur 12,5%. Hagfræðingar telja ef að lækkuninni yrði myndu alþjóðleg fyrirtæki sem hafa höfuðstöðvar í Bretlandi færa þær til Belfast og minnka þar af leiðandi skattgreiðslur sínar. Fyrr á þessu ári reyndu bresk skattayfirvöld að koma í veg fyrir að breska fyrirtækið Cadbury Schweppes færði starfsemi sína til Dublin.

Talið er að Asúr-eyjarnar séu eini staðurinn innan Evrópusambandsins þar sem sérstakur fyrirtækjaskattur er, þ.e. annar en í sambandinu, en framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins úrskurðaði að það væri brot á samkeppnislögum í júlí síðastliðnum. Á Gíbraltar hefur einnig verið lagt til að sérstakur skattur verði tekinn upp.